Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
6.3.2007 | 14:57
Betra að hafa kút í djúpu lauginni!
Það er gaman að sjá að þeir eru fleiri en ég sem eru að taka fyrstu sundtökin í blogginu og hafa hug á að skrifa um virkjanir og umhverfismál! Þetta gerir Páll Helgi Hannesson, http://pallheha.blog.is/blog/pallheha/ . Hann byrjar á að stinga sér í djúpu laugina, eins og hann segir, og tekur fyrir meintan hálfsannleik og hótanir sem ég ku eiga að hafa haft í frammi í viðtali við Svein Helgason í RÚV á föstudaginn.
Sjá, http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4304461/4 - Ég eftirlæt hverjum fyrir sig að vega og meta hvort á ferð séu duldar hótanir með því að hlusta á viðtalið! Svo er það sannleikurinn í framhaldinu:
Athugasemdir Páls um vatnsréttindi og samningamál vegna áforma um virkjanir í neðri hluta Þjórsár byggjast á grundvallarmisskilningi. Hann virðist halda að öll vatnsréttindi þau sem ríkið keypti upp úr 1950 af Titan félaginu sem kennt er við Einar Benediktsson hafi verið lögð inn í Landsvirkjun við stofnun. Einnig virðist hann halda að öll vatnsréttindi sem ríkið keypti tengist svæðum sem nú teljast þjóðlendur. Hvorttveggja er rangt.
Það sem Páll áttar sig ekki á er að ríkið lagði einungis inn í Landsvirkjun á sínum tíma vatnsréttindin í Þjórsá ofan við Búrfell, þ.e. inni á hálendinu. Eignarhald á þeim réttindum er nú í uppnámi vegna úrskurðar óbyggðanefndar eins og Páll lýsir. Ríkið virðist vilja standa við skuldbindingar sínar um framlag við stofnun Landsvirkjunar og þess vegna liggur fyrir frumvarp til laga um að Landsvirkjun eignist þau vatnsréttindi sem talið var framlag ríkisins við stofnun fyrirtækisins. Það er verið að staðfesta ráðstöfun stjórnvalda sem átti sér stað um 1965. Vandséð er hvernig það má kallast búbót til Landsvirkjunar eins og Páll orðar það. Það væri hins vegar skaði fyrir fyrirtækið ef í ljós kemur að einn stofnandi þess getur sloppið við að standa við skuldbindingar sínar með því að afturkalla framlag sitt 40 árum eftirá. Væntanlega yrði það ekki heldur til að efla traust á ríkinu sem viðsemjanda.
Það sem viðtalið við mig á föstudag snerist um er neðri hluti Þjórsár og þar keypti Titan vatnsréttindi sem tilheyrðu eignarlandi einkaaðila niðri í byggð. Þar er eignarréttur ríkisins á vatnsréttindunum óskoraður eftir kaup á búi Titans. Ríkið hefur aldrei lagt þau réttindi til Landsvirkjunar né heldur selt henni þau. Óbyggðanefnd hefur aldrei fjallað um þessar eignarheimildir við neðanverða Þjórsá enda er fullur eignarréttur á landi þar óskoraður. Nú standa yfir samningaviðræður sem eru langt á veg komnar um kaup Landsvirkjunar á þessum vatnsréttindum af ríkinu.
Það er misskilningur Páls að niðurstaða í mati á umhverfisáhrifum hafi byggst á forsendum um eignarhald Landsvirkjunar á slíkum réttindum. Breyttar skilgreiningar á því sem Páll nefnir orkusvæði Landsvirkjunar (sennilega átt við orkuveitusvæði) í raforkulögum vísar til þess hvar fyrirtækið selur rafmagn en ekki hvar það má framleiða það og er því málinu óviðkomandi.
Landsvirkjun á í viðræðum við landeigendur við neðri hluta Þjórsár og í þeim viðræðum er öllum ljóst að vatnsréttindin á þeim slóðum eru nánast öll í eigu ríkisins og að kaup Landsvirkjunar á þeim réttindum séu forsenda samninga milli Landsvirkjunar og landeigenda um landnot og bætur fyrir rask. Enginn landeigandi eða vatnréttindaeigandi hefur lýst yfir andstöðu við að semja við Landsvirkjun. Um hvernig þeir samningar ganga fyrir sig má lesa í hinni bloggfærslunni minni eða hlusta á það sem ég segi í útvarpsviðtalinu!
Páli þykir ég hafa stýrt umræðum inn á þá braut að tala um bætur og samningamál frekar en hvort rétt sé að virkja. Ég vissi ekki betur en að Sveinn Helga hafi verið að gera frétt um einmitt það atriði! Margrét Thatcher var hörð í samskiptum við fréttamenn, sagði einu sinni við spyril þegar hún fékk óþægilega spurningu: Þetta er ekki spurninginn sem þú átt að spyrja mig, heldur eftirfarandi.... og svarið við því er svona...! Ég er ekki svona fær og Sveinn er ekki svona meðfærilegur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)